Um valkvæða löghlýðni og almennt um hræsni

Á síðustu misserum hafa heyrst háværar og mismálefnalegar upphrópanir um „glæpamenn“ samfélagsins, réttarkerfið og þörfina fyrir að refsa. Dómarar hafa legið undir gagnrýni fyrir að hafa ekki dæmt kynferðisafbrotamenn til aftöku á torginu og mönnum hreinlega blöskrar að svona sjúkt fólk skuli yfir höfðu fyrirfinnast í samfélaginu. Þegar slík mál koma upp virðist fólk ekki vera tilbúið að samsama sér með öðrum sem manneskjum og opna fyrir þann möguleika að öll erum við eins og að allt er arfleið fortíðarinnar. Að sjálfsögðu er ekki hægt að segja að við séum eins að öllu leyti. Öll komum við úr mismunandi umhverfi, hlutum ólíkt uppeldi og glímum við ólík verkefni eða vandamál, eftir því hvernig fólk lítur á það. Það er hins vegar alltaf auðvelt að rembast við að sjá það sem er ólíkt í stað þess að horfa til þess sem er líkt þegar það hentar manni. Dalai Lama hefur komist að því að eftir því sem hann ferðast meira og hittir fleira fólk af ólíkum kynþáttum og menningarheimum er hann sannfærðari um að við séum að miklu leyti öll eins. Öll höfum við drauma og þrár um að verða hamingjusöm og líða vel. Svo einfalt er það. Leiðirnar að markmiðunum eru hins vegar margvíslegar. Miðað við reynslu forfeðranna ætti að vera komin ein allsherjarlausn, þ.e. einföld leið sem leiðir okkur að markmiðinu. En svo virðist ekki þó forfeður okkar hafi verið óþreytandi við að skrá visku sína og ráðleggingar í þúsundir ára. En allt kemur fyrir ekki, við virðumst ekki hlusta. Alltaf virðumst við vita betur, vita réttu leiðina, allavega fyrir okkur. Í mjög mörgum tilvikum komumst við að því að við höfðum rangt fyrir okkur. Við hlaupum á vegg. Hammurabi hefur enga tölu á því hversu oft hann hefur hlaupið á umræddann vegg og komist að því að það sem hann hélt að væri heilagur sannleikur var byggt á vægast sagt brengluðum ranghugmyndum. En ef við lítum saman á markmið okkar, þ.e. um hamingjuna og samþykkjum að það sé markmið allra er nokkuð ljóst að stór hluti okkar virðist langt frá því að ná því markmiði. En hversu langt frá markmiðinu eru menn í raun og veru? Er það mælanlegt? Er forstjórinn sem á konu, tvö börn, hús og bíl nær markmiðinu heldur en flakarinn sem býr einn í leiguíbúð og er bíllaus? Hvað ef forstjórinn bíður dóms fyrir að hafa misnotað börnin sín tvö?

 

Öll höfum við gert eitthvað gegn okkar betri vitund, eða réttara sagt gegn þeirri vitund sem við teljum og upplifum sem hina réttu. Að sjálfsögðu er andleg meinsemd ekki réttlæting misgjörða þegar þær hafa áhrif á aðra, sem þær gera í nánast öllum tilvikum. Veikindi réttlæta á engan hátt að við öbbust upp á aðra og allra síst varnarlaus börn. En sem manneskjur skulum við gefa okkur tóm til íhugunar áður en við hlaupum upp til handa og fóta og förum að dæma aðra og heimta aftökur eða lífstíðarfangelsi.

 

Ljóst er að mönnum þykir mismikið til þeirra laga koma sem Alþingi setur í okkar umboði. Það er hins vegar einnig ljóst að lög eru þær reglur sem við höfum gengist undir að hlýða með samfélagssáttmálanum. Lög eru lög og við getur ekki valið þau sem henta okkur.

 

Ekki keyra um Þingholtin á 70 km hraða og blogga síðan um að barnaníðingar séu réttdræpir og dómarar landins séu vondir menn. Það er bara hræsni. Hvort vill foreldri frekar halda á barni sínu í fanginu augnablikum eftir að það hefur verið misnotað kynferðislega og þurfa að fara að takast á við allar þær afleiðingar sem því fylgir fyrir barnið eða halda á líki sama barns eftir að það hefur verið keyrt niður, myrt, af ökuníðingi sem keyrði um Þingholtin á 70 km hraða.

 

Minnumst þess líka að fólk og börn gera líkt og við hin gerum. Það þýðir lítið fyrir foreldra að banna börnum sínum að lemja á meðan þau sjálf lemja hvort annað. Fólk hlustar ekki það horfir. Breytum frekar rétt í stað þess að hrópa upp um það sem aðrir gera rangt.

 

Bylting andans mun breyta heiminum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband